Friday, December 4, 2009

Þrír ættliðir í einu liði, fjórir bræður í öðru, feðgar í okkar liði

Mammútar æfðu eldsnemma í morgun á keppnissvellinu, farnir af hótelinu kl. 6.55 og æfðum kl. 7.30-8.30. Góð æfing og allir orðnir spenntir að fara að spila.



Við erum búnir að hitta gamla vini og kunningja úr ýmsum liðum og komast að ýmsu skemmtilegu. Til dæmis eru þrír ættliðir í liðinu frá Eistlandi ef við höfum skilið rétt. Af eftirnöfnum að dæma er einnig líklegt að í kvennaliði Eistlands sé systir, dóttir, móðir eða eiginkona einhvers úr karlaliðinu. Áður var í liðinu faðir og tveir synir en annar sonanna er hættur í liðinu og í staðinn kominn sonarsonur fyrirliðans. Í liði Slóvaka eru fjórir bræður. Í okkar liði eru feðgar, þjálfarinn og einn leikmannanna.

Mammútar hafa fundið "stellinguna" sína fyrir myndatökur. Þjálfarinn smellti af einni eftir æfinguna í morgun, að sjálfsögðu við brautina þar sem við byrjuðum að æfa (merkt okkur og Evrópumótinu) en æfingin fór reyndar þannig fram að við prófuðum allar brautirnar, fengum tíu mínúturá hverri braut.



Skotar eru höfðingjar heim að sækja og einstaklega vingjarnlegir og gestrisnir - það kemur auðvitað ekkert á óvart. Einn úr liðinu komst að því að keppnisbuxurnar voru heldur síðar og þurfti því að finna leið til að stytta buxurnar. Það þurfti ekki annað en að nefna slíkt í krulluklúbbnum, samstundis var fundin góð kona sem kann réttu handtökin og ætlar að taka buxurnar hans Óla til meðhöndlunar. Á myndinni hér að neðan er eru fjórir úr okkar liði, þjálfarinn og einn heimamanna með einhverja beljufígúru í fanginu, held að hún heiti "Moo" - hljómar líklega fyrir belju.


No comments:

Post a Comment