Eins og við var að búast gekk ferðin út vel, flugum til Manchester og svo til Aberdeen. Á flugvellinum í Manchester var biðtíminn notaður fyrir liðsfund, þjálfarinn miðlaði okkur af reynslubrunni sínum og rætt var um hvað við þyrftum helst að æfa og helst að varast og svo framvegis. Þjálfarinn og fyrirliðinn voru að sjálfsögðu ábúðarmiklir eins og sést á myndinni.
Skemmtilegt skilti varð á vegi okkar á flugvellinum í Aberdeen og fyrirliðinn og aðstoðarfyrirliðinn tóku því nokkuð bókstaflega ef eitthvað er að marka þessa mynd sem náðist af þeim - þeim alveg að óvörum.
Í morgun var okkur ekið til Forfar, sem er bær í um 85 kílómtera fjarlægði frá Aberdeen. Þar áttum við pantaðan æfingatíma á "alvöru" svalli kl. 13-15. Fyrst tókum við góða æfingu, vöndumst svellinu og æfðum hin ýmsu skot. Þetta eru mikil viðbrigði fyrir okkur sem erum vanir að spila á skautasvellinu á Akureyri. Fjórir af fimm liðsmönnum hafa aldrei spilað krullu utan Akureyrar áður, aðeins þjálfarinn og bloggritari hafa fengið að njóta þess að komast á "alvöru" svell áður. Æfingin var okkur því mjög mikilvæg. Í gegnum Facebook höfðum við bent gríska liðinu á þetta svell og Grikkirnir æfðu þarna á sama tíma. Reyndar er gaman að segja frá því að enginn Grikkjanna hefur nokkurn tímann búið í Grikklandi. Þeir eru allir af annarri kynslóð Grikkja í öðrum löndum, fjórir búsettir í Þýskalandi og einn í Sviss - og það var svolítið skondið að sjá fimm Grikkja tala saman á þýsku! Eftir að bæði lið höfðu æft sig nokkuð vel var ákveðið að taka stuttan æfingaleik (hálfan leik miðað við lengd leikja á Evrópumótinu). Við spiluðum ágætlega miðað við aldur og fyrri störf og eftir fimm umferðir voru liðin jöfn, 5-5. Við erum ánægðir með það. Við vorum því á svellinu að æfa og spila í rúma fjóra klukkutíma í dag.
Tími til að hvíla sig, næsta æfing er á keppnissvellinu okkar kl. 7.30-8.30 í fyrramálið.
Til að fara aðeins til baka þá skemmtu fjórir úr hópnum sér vel við það þar sem við gistum í Reykjanesbæ að taka búningana upp úr Henson-töskunni og máta. Við vorum eiginlega eins og krakkar að opna jólapakka. Í morgun fyrir æfinguna fengu svo hinir tveir að skoða og máta. Flottir búningar frá Henson:
No comments:
Post a Comment